Heildartala yfir síðuflettingar

Sýnir færslur með efnisorðinu Teppi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Teppi. Sýna allar færslur

föstudagur, 16. september 2022

Lítið teppi með kaleidoscope munstri

Mér finnst alltaf jafn nærandi að sauma afgangateppi, og vinna úr afgöngum almennt. Ég sá svona teppi einhvers staðar á netinu í vor og langaði að sauma svipað, sérstaklega af því að þessi blokk er ein af mínum uppáhalds. Svo litlu afgangarnir voru dregnir fram einu sinni enn, og hafist handa. Mörg þessara efna eru áratuga gömul svo það er eins og að ferðast aftur í tímann að skoða bútana.

Ég bjó blokkina til í EQ8 forritinu, fann einhvern veginn út úr því, og sneið svo alla 576 þríhyrningana eftir skapalóni úr pappa sem ég prentaði út, strikaði i kring með blýanti og klippti út með skærum. Þarna kláruðust sum efni alveg. Reglan er sú að skipta efnunum í ljós og dökk, og mega dökkar eða ljósar hliðar aldrei liggja saman. Þetta gekk upp og var skemmtilegt að gera. 


 Og merkið fór á sinn stað, saumað í útsaumsvélinni minni góðu.  Hver blokk er 23x23 cm og allt teppið ca. 92x92 cm.

þriðjudagur, 23. ágúst 2022

Teppi heklað úr afgöngum


Eitt af því óhjákvæmilega sem fylgir prjónaskap er að afgangar safnast fyrir. Ég kaupi reyndar aldrei garn “til að eiga.” Kaupi bara í ákveðin verkefni og skila heilum dokkum ef ég hef keypt of mikið. Eina undantekningin er ef um handlitað garn er að ræða. Ég kaupi það einstaka sinnum ef mér finnst það fallegt og veit að ég get notað það. Þessar hespur eru þó teljandi á fingrum annarrar handar (næstum).


Eins og einhverjir vita kaupi ég mikið af Drops merino extra fine í barnaföt þar sem gert er ráð fyrir grófleika fyrir prjóna nr. 4. Finnst það garn bara á allan hátt svo skemmtilegt. Og eftir að ég var búin að prjóna vettlingapör í alls konar litasamsetningum á barnabörnin var samt alltaf að bætast í afgangapokann og orðið erfiðara að loka skúffunni. Í sumar horfði ég á vídeó hjá Gunnlaugu Hannesdóttur á youtube, sem hannar undir nafninu gunnhann, alveg frábær vídeó fyrir handavinnufólk, þar sem hún hafði heklað afgangateppi með stuðlahekli. Ég hermdi eftir teppinu hennar, en málið var að það voru litaskipti í hverri umferð sem hefur í för með sér gífurlega frágangsvinnu.


En hún leysti það með tvöföldum kanti, sem er lokað í restina, og þar með lokast endarnir inni. Að sjálfsögðu þarf að tryggja þá með því að binda saman tvo og tvo, en að öðru leyti þarf ekkert að gera. Að sjálfsögðu er líka tímafrekt að hekla tvöfaldan kant, en skemmtilegra en endafrágangur og fallegra. Gunnlaug var svo vinsamleg að láta mig fá slóðina að myndbandi þar sem þetta er kennt.

Garnið er sem sagt Drops merino extra fine að mestu leyti, ég hreinsaði líka upp smávegis af svipuðum grófleika af öðru garni og heklaði á heklunál nr. 4. Í kantinn notaði ég hins vegar alls konar baby garn og var þá með heklunál nr. 3.  Teppið vegur 884 grömm sem samsvarar tæpum átján 50 gramma dokkum. Ég náði að hafa það ferning, ca.1,20 x 1,20.

P.s. Það er strax farið að safnast fyrir aftur af Drops merino extra fine afgöngum.

þriðjudagur, 25. maí 2021

Bútasaumsteppi handa systrum

Þessi tvö teppi saumaði ég handa 4 ára og tæplega 6 ára ömmustelpum sem eru systur. Áður hafði ég saumað handa systkinunum sem verða bráðum 6 ára og 2 ára. Teppin þeirra eru neðar á síðunni. Teppið hér að ofan fékk sú eldri.

Þessi tvö teppi eru mjög lík, en það munar samt einu efni, ef grannt er skoðað. En ég vildi hafa þau mjög svipuð.

Dömurnar eru nýfarnar að sofa í koju, og teppin eru í fullri stærð, ca. 2,15 x 1,40. Merkimiðann saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu.

Efnin keypti ég á útsölu hjá Panduro þegar þau lokuðu fyrir rúmu ári síðan, og hafði þetta munstur í huga þegar ég keypti þau.

Þetta er teppi yngri systurinnar. Bakefnið keypti ég hjá Bóthildi. Sá það á síðunni hennar og var ekki lengi að ákveða mig. Skiptir miklu máli að hafa bakefni sem passar, sérstaklega á rúmteppum sem er verið að þvælast með.

Ég stakk í öll saumför, og síðan í kross yfir allt, notaði málningarlímband til að fá beinar línur og í þær stungur notaði ég Cotty 30 stungutvinna frá Pfaff.

Nú prýða teppin kojuna og fara mjög vel þar. Nú eiga öll barnabörnin rúmteppi í fullri stærð.


 Hér fyrir neðan er sýnishorn af teppunum þeirra allra. Ég reyndi að láta litaval passa hverju og einu.


miðvikudagur, 20. janúar 2021

Dómínóteppi úr afgöngum

Fyrir nokkrum mánuðum flokkaði ég alla garnafganga vel eftir tegundum og setti í glæra poka. Ég á mikið af ungbarnagarni, og ég tók alla minnstu hnyklana og hafði þá sér og fylltu þeir alveg gráan ikea renniláspoka, eins og maður notar í eldhúsinu. Á aðventunni vantaði mig eitthvað að prjóna og greip þessa afganga og byrjaði að prjóna ferninga með dómínóprjóni, þar sem ekkert þarf að sauma saman. Ég átti nú alveg eins von á að ekkert yrði úr þessu en svona varð útkoman. Þetta er ekki stórt, 70x88 sm, en ömmustelpurnar tóku það til handargagns þegar þær voru hjá mér í vikunni og önnur þeirra lagði sig undir því. Garnið kláraðist alveg, pokinn er tómur, en ég bætti aðeins við rauða litinn í kantinum til að klára.



 

þriðjudagur, 21. maí 2019

Northeasterly afgangateppi

  
Ég er mikið fyrir að nýta vel afganga, og hef búið til fullt af teppum, bæði prjónuðum og saumuðum, bara úr afgöngum.
Uppskriftin að þessu fæst á Ravelry, og snilldin við hana er sú að renningarnir eru prjónaðir saman jafnóðum.


Ég notaði litla hnykla af ungbarnagarni sem höfðu safnast fyrir.  Litirnir þurfa að passa nokkkuð vel saman, það gekk ekki að hafa t.d. rautt með þessum litum.  Gæti trúað að sprengt garn  í ýmsum litum kæmi best út í þessari uppskrift.
Ég prjónaði þangað til litlu hnyklarnir voru búnir, og þetta varð svona þokkalegt dúkkuteppi.

laugardagur, 5. ágúst 2017

Teppi úr léttlopaafgöngum

Alltaf safnast afgangar fyrir. Það eru tvö til þrjú ár síðan ég byrjaði á þessu teppi og ætlunin var að klára sem mest af léttlopanum.
Ég notaði dómínóprjón. Hef gert það áður til að nýta afganga.
Þegar teppið var búið átti ég enn afganga, og gerði þennan bleðil, hugsaði hann sem kisuteppi eða eitthvað svoleiðis.
Að lokum prjónaði ég bara allt sem eftir var í tvo bleðla í viðbót, kannski fyrir kisur líka.
Þetta er léttlopinn sem ég á núna. Þessar dokkur eru sérlitaðar, keyptar í Handprjónasambandinu, og tímdi ég ekki að setja þær í þetta.

fimmtudagur, 26. janúar 2017

Dúkkuteppi

Litlu stelpurnar mínar vantaði teppi fyrir dúkkurnar sem þær fengu í jólagjöf frá ömmu og afa.
Teppin heklaði ég úr afgöngum af bómullargarni, og hafði þetta munstur til hliðsjónar.

mánudagur, 15. júlí 2013

Afgangateppi à la Arne&Carlos

 

Núna í júní prjónaði ég afgangateppi eins og þeir Arne&Carlos gera í bókinni Litríkar lykkjur úr garðinum.

Ég átti haug af smárestum af garni, flest áratuga gamalt, sem var ekki hægt að gera neitt með. Þó var ég búin að saxa aðeins á hann með teppinu sem glittir aðeins í í síðustu færslu.

Það er svo gott fyrir sálina að hreinsa svona upp. Ég fitjaði upp 250 lykkjur, og prjónaði svo þar til garnið var svo til uppurið. Ég skipti bara um lit þegar endinn var búinn. Teppið varð tæplega 2 metra langt. Grófleikinn var mismunandi, og stundum prjónaði ég úr tvöföldu.

Það þarf svona snillinga til að benda manni á svona einfalda hluti.

 

mánudagur, 12. desember 2011

Prjónaskapur af ýmsu tagi

Hún Úlfhildur Sjöfn, litla frænka mín, varð 4 ára þann 10. desember, og þá færði ég henni þessa lopapeysu. Uppskriftin er á heimasíðu Ístex.

Litla systir hennar, Salvör Veiga, þurfti að fá jólasveinahúfu til að vera eins og stóra systir. Ég prjónaði eins húfu á Úlfhildi Sjöfn fyrir tveimur árum. Uppskriftin er hér.

Þegar ég var búin að prjóna alla sokkana hér að neðan úr afgöngum af léttlopa, sem safnast reglulega upp hjá mér, náði ég að prjóna þetta teppi með Dómínó aðferðinni, og kláraði fullt af litlum hnyklum. Ég gerði ekki kant, því ég er að hugsa um að geyma það og bæta við það seinna þegar meiri afgangur safnast upp. Það eiga að vera takkar kringum teppið.

Þessi 12 sokkapör ásamt 7 öðrum, samtals 19 pör af sokkum á tveggja, fjögurra og sex ára, setti ég í verkefnið Jól í skókassa sem KFUM og K heldur utanum hvert ár.

Svo datt ég í jólakúluprjón og er búin að prjóna 12 kúlur. Ég prjóna eftir uppskrift frá Prjóna Jónu, sem er að finna á Facebook síðu hennar. Ég nota léttlopa og prjóna no. 4. Ég fékk þennan fallega jólarauða lit í Handprjónasambandinu, en mér skilst að þetta sé sérlitað fyrir það og bara selt þar. Það er með fleiri liti sem Ístex sérlitar fyrir það.
Ég hengi kúlurnar neðan í hringstigann okkar.


Loks er hér mynd af prjónuðum umbúðum utan um pakka, sem ég fór með á jólahlaðborð í vinnu mannsins míns. Þar var pakkaleikur, og sú sem fékk þennan var mjög ánægð með hann og það staðfesti fyrir mér að fólki finnst vænt um að fá handunna hluti.

 

mánudagur, 27. september 2010

Stjörnuhekl

Í mörg ár hef ég ætlað að læra stjörnuhekl. Svo ætlaði ég að hekla lopateppi, því ég man eftir þannig teppi á heimili foreldra minna þegar ég var lítil.
Uppskriftina fann ég svo í bókinni Kúr og lúr, sem kom út á síðasta ári.
Ég notaði léttlopa í teppið og hafði það bara lítið, ca.70x115.
Auðvitað notaði ég afganga, þeir hlaðast alltaf upp, en keypti samt dálítið af fjólubláum dokkum til að lífga upp á sauðalitina. En.......ég notaði ekkert rautt!!

mánudagur, 7. júní 2010

Teppi úr kambgarni

Þetta teppi lauk ég við fyrir 2-3 vikum. Ég á töluvert af kambgarni síðan ég saumaði út með því fyrir nokkrum árum. Þá gerði ég litla riddarateppið og sófapúða og fleira, en þurfti lítið af hverjum lit.
Svo sá ég á netinu þessa uppskrift, og langaði til að prófa hana. Uppskriftin er fyrir ungbarnateppi, en ég hafði það stærra.
Ég notaði ekki alla litina sem ég átti. Appelsínugult t.d. get ég varla notað í neitt! En... þetta var sem sagt útkoman. Það eru notaðir mun grófari prjónar en gefið er upp fyrir garnið, og því verður teppið svo blúndukennt.